Opið bréf til kristinna ættingja frá trúlausri móður

 

Það hefur tekið mig tíma að átta mig á því hvers vegna það særir mig svo mikið að sum ykkar getið ekki virt rétt minn til að ala börnin mín upp í trúleysi. Það var ekki fyrr en ég áttaði mig á því hve nátengd hugtökin ást og virðing eru sem ég gerði mér grein fyrir því. Það er næstum því ómögulegt að elska manneskju nema að virða hana. Hluti af því að virða manneskju er að virða skoðanir hennar og lífssýn. Nú er ég ekki að tala um að allir verði að vera sammála, heldur aðeins að virða rétt sinna nánustu til að vera ósammála.
 
Ég hef verið ásökuð um að vera með öfgar. Mínar skoðanir eru ekki skoðanir meirihluta landsmanna, en þær eru ekki öfgakenndari en svo að þær njóta verndar Íslensku stjórnarskrárinnar og alþjóða mannréttindalaga. Þær ganga ekki á rétt annarra, en þegar ég ræði þessa hluti, get ég orðið mjög áköf þar sem þær eru mikilvægar fyrir mig. Það sem ég fer framá er að fá að hafa þær. Eru allir öfgafullir, sem ekki fylgja meirihlutanum?
 
Þetta hefur ekkert að gera með hverrar trúar maður er, því að hellingur af trúuðu fólki stendur með okkur trúlausum í baráttu okkar. Ágætt dæmi um það er
http://omarragnarsson.blog.is/blog/omarragnarsson/entry/389825/ blogg Ómars Ragnarssonar sem er kristinn, en virðir samt skoðanir þeirra sem ekki eru kristnir. Ekki frekar en að hommar krefjast þess að allir hetro gerist hommar, krefjast trúlausir þess að kristnir gerist trúlausir eða fatlaðir, að ófatlaðir setjist í hjólastól.  En siðgæði þjóðarinnar endurspeglast oft í hvernig réttindi minnihlutahópa eru virt í samfélaginu. 

Það er klárt að ef mínir nánustu geta ekki virt mín réttindi sem ég hef samkvæmt stjórnarskránni, þá tek ég það persónulega. Nákvæmlega sama og  sjúklingur tekur því persónulega ef fjölskyldan áfellist viðkomandi fyrir að vera ímyndunarveik  eða með aumingjaskap en ekki alvarlegan sjúkdóm.  


Ef þið teljið að einhver kennari sé betur til þess fallin að dæma um hvað sé barninu mínu fyrir bestu en ég sem móðir þess, tel ég það sem tákn um að þið teljir mig vanhæfa sem móðir. Þegar kom að því að skíra barnið mitt, urðum við foreldrarnir að taka afstöðu til trúmála. Okkur finnst kristið siðgæði ekki nógu gott til að notast við þegar kemur að uppeldi barna. Þess vegna bjuggum við til okkar eigin vinnureglur. Við skráðum þær á skjal með mynd af barninu og í votta viðurvist sem voru allir okkar vinir og ættingjar sem saman voru komnir til að fagna barninu með okkur. Hér er útdráttur úr loforði okkar:

Við skulum annast þig eins vel og við getum.

Þú skalt fá að prófa þig áfram eins og þú hefur þroska til. Þegar illa fer skulum við vera til staðar og hugga þig og hvetja og gleðjast með þér þegar vel gengur.

Við vonumst til að þú lærir að þú getur það sem þú vilt ef þú bara vilt það nógu sterkt.

Að þú verðir nógu sterk til að gera það sem þú veist að er rétt, jafnvel þó þú þurfir að sigla á móti straumnum.

Að þú lærir að virða sjálfa þig og aðra.

Við vonumst til að geta gefið þér góða byrjun á lífinu, svo að þú komir til með að geta séð um þig sjálf, en að við verðum samt alltaf til fyrir þig ef þú þarft á okkur að halda.  

Ég er ekki að segja að allir eigi að gera eins og við. Mér finnst bara okkar aðferð ekki verri en sú sem kirkjan bíður uppá. Ég er ekki að segja að allir foreldrar sem skíra börnin sín í kirkju séu ómeðvitaðir um sitt val, en margir eru það og ég held að foreldrar sem taka ábyrga afstöðu og kynni sér hlutina séu betur undir foreldrahlutverkið búnir hvort sem þeir eru kristnir, trúlausir eða eitthvað allt annað. Þegar við skírum börnin okkar til kristinnar trúar, lofum við að ala þau upp í kristinni trú. Þar er ekki gefin nein trygging fyrir því að skólakerfið annist það fyrir okkur, heldur er það á ábyrgð foreldranna. Það er líka markmið mitt að börnin mín séu samkvæm sjálfum sér. Ég kenni þeim það með  fordæmi mínu. Þess vegna fer ég líka framá að minn réttur til þess sé virtur.

Ef við lítum til baka á sögu mannkynsins, þá hafa flest mannréttindamál þurft baráttu. þetta er eitt af þeim og ég er sannfærð um að barnabörn okkar verða hissa þegar þau læra það í skólanum seinna að við höfðum ekki verið komin lengra en þetta árið 2007. Það að nenna ekki að kynna sér hlutina er ekki afsökun fyrir að styðja vitlausan málstað.

Að lokum vil ég óska ykkur öllum gleðilegra jóla. Jólin eru í mínum huga mikil fjölskylduhátíð og þess vegna vonast ég til að innan fjölskyldunnar rúmist mismunandi skoðanir.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

No worries, réttlætið sigrar að lokum þó það þurfi að þvinga kristna í mannlegt siðgæði

DoctorE (IP-tala skráð) 17.12.2007 kl. 11:29

2 Smámynd: Morten Lange

Vel talað.  Ég er ansi sannfærður um að þú fáir meiri virðingu þegar fram liða stundir. Tíminn vinnur með þér.

Morten Lange, 17.12.2007 kl. 17:57

3 Smámynd: Ásta Kristín Norrman

Takk fyrir athugasemdirnar Doctor E och Morten! Eg skrifaði þetta bréf mikið til vegna þess að ég vil sýna fólki að við trúleysingjar erum að mestu venjulegt fólk, með venjulegt siðgæði og tilfinningar. Eg lifi ágætu lífi án virðingar og ást stórfjölskyldu minnar. Eg fæ það frá eiginmanni mínum og 3 dætrum og hefur alltaf fundist betra að hafa fáa góða í kringum mig í stað þess að hafa marga af mismunandi gæðum. Eg vona bara að börnin þeirra falli vel inní hið þrönga form "hins venjulega" borgara sem þau hafa búið sér til, því það er ekki auðvelt að rísa upp á afturfæturnar í þeirra samfélagi.

Ásta Kristín Norrman, 19.12.2007 kl. 07:40

4 Smámynd: Greta Björg Úlfsdóttir

til þín!

Greta Björg Úlfsdóttir, 19.12.2007 kl. 18:20

5 Smámynd: Anna Benkovic Mikaelsdóttir

Takk fyrir þetta...ég er nú svo heppin með mína stórfjölskyldu að hún er ekkert að pæla í þessu, er bara skráð og búið mál.  Hef sjálf hinsvegar alltaf pælt mest í trúmálum í minni fjölskyldu og leit mín til Siðmenntar er svo sannarlega ekki vanhugsuð!

GLEÐILEG JÓL

Anna Benkovic Mikaelsdóttir, 20.12.2007 kl. 11:00

6 Smámynd: Magnús Þór Jónsson

Sæl Ásta.

Ákvað að kommenta hér í kjölfar færslu á bloggið mitt.

Lofa þér að ég stjórna mínum skóla í samræmi við lög um grunnskóla og skólastefnu sveitarfélagsins míns.

Þú getur líka treyst því að ég fylgist með því hjá öllum nemendum sem í skólanum mínum eru hverrar trúar þeir eru og hef gengið mjög langt í því að nálgast trúarskoðanir sem og aðrar lífsskoðanir forráðamanna af virðingu.

Líka þeirra sem aðhyllast trúleysi.  Ég reyndar vill nú meina það að trúleysi sé trú á rökhyggjuna sem ég ber mikla virðingu fyrir, enda faðir minn og tvö yndisleg systkini sem aðhillast henni en ekki kristni.  Ég bý svo vel að fá að vera kristinn í minni fjölskyldu og mér þykir leitt ef þín fjölskylda sínir þér ekki skilning.

En það stríð sem nú geysir milli heittrúaðra kristinna og þeirra sem aðhyllast rökhyggju skilar sér ekki í betri líðan barna eða betra skólastarfi.

Ekki frekar en önnur stríð Ásta.

Ég hef og mun aldrei þvinga dætur mínar þrjár til sömu skoðana og ég, heldur auðvitað elska þær skilyrðislaust.  Ræddi við dóttur mína lengi fyrir ferminguna og gaf henni að mínu viti litlausa mynd af því sem framundan lá í hennar vali.  Auðvitað gladdist ég þegar hún taldi kristilega fermingu vera það sem hún vildi.  Alveg eins og þegar ég gleðst yfir því að hún fagnar með mér sigrum Liverpool.  Ef hún velur sér það að aðhyllast Siðmennt á fullorðinsárum er það hið besta mál.  Eins og ég veit að þú myndir gera ef dætur þínar ákveða það að velja kristna trú sem sína lífssýn og lífsskoðun.

En ég hef mikið velt fyrir mínu hlutverki sem skólastjóri og því hvernig kirkjan, og mörg önnur samtök, eiga að tengjast grunnskóla þannig að börnin séu að græða á þeim samskiptum, algerlega óháð trúarskoðunum.

Get nefnt þér dæmi að í litlujólaathöfn okkar í gær ákvað ein stúlka múslímskar trúar að fá að vera annars staðar á meðan á jólahugvekjunni stóð, á meðan að bróðir hennar tók þátt í athöfn með helgileik jólaguðspjallsins.  Á meðal þátttakenda í tónlistaratriðunum voru mörg pólsk börn, rómversk-kaþólskrar trúar.

Öllum forráðamönnum er gert ljóst að börn þeirra séu á þessum skemmtunum, eins og alls staðar í skólastarfi, að þiggja þau tilboð sem skólinn ákveður að veita og forráðamenn eru þeir sem hafa endanlegan ákvörðunarrétt um þátttöku barna sinna í þeim tilboðum.

Því það er jú heila málið, forráðamenn bera ábyrgð á frumuppeldi barna og skólinn býður upp á menntun fyrir þau.  Allar ákvarðanir um þau tilboð eru tekin að vandlega athuguðu máli með aðkomu allra lögbundinna aðila.

Þetta allt ræddi ég í mörgum bréfum mínum til formanns Siðmenntar, Hope, á síðasta skólaári.

Takk fyrir heimsóknina á síðuna mína og gleðileg jól til þín og þinna.

Magnús Þór Jónsson, 21.12.2007 kl. 23:46

7 Smámynd: Margrét St Hafsteinsdóttir

 Seasons Greetings Gleðilega hátíð og hafðu það sem allra best.





Margrét St Hafsteinsdóttir, 22.12.2007 kl. 19:50

8 Smámynd: Ásta Kristín Norrman

Takk fyrir svarið Magnús. Þegar þú segir að þú vinnir eftir stefnu þíns sveitafélags efast ég ekki um orð þín. Það sama gildir ekki þegar þú talar um að þú vinnir í samræmi við grunnskólalögin og vil ég skýra það nánar. Í landinu er skólaskylda og öll börn á grunnskólaaldri hafa líka rétt til að ganga í skóla. Það þýðir að þau eiga og hafa rétt á að vera í skólanum á skólatíma og allt starf í skólanum á skólatíma á að vera við þeirra hæfi. Það að ein múslímsk stelpa treysti sér ekki til að vera í skólanum við ákveðna athöfn, gefur til kynna að skólinn bresti þarna. Skólinn er kennslustofnun. Það stendur hvergi í lögunum að skólinn eigi að hafa samskipti við kirkju. Samt setur þú þessi samskipti í forgang fyrir að fylgja þeim lögum að allt skólastarf eigi að vera við hæfi barnanna. Það að þú fylgist með trúarhugmyndum allra barna og foreldra er líka brot á trúfrelsislögunum. Eg vona að þú haldir ekki skrá yfir stjórnmálaskoðanir þeirra líka.

Það er erfitt að vera foreldri og þurfa að standa í látum í skóla barna sinna. Maður veit ekki nema það eigi eftir að koma niður á börnunum og þess vegna eru margir foreldrar sem velja að halda kjafti og láta valta yfir sig. Það getur haft slæmar afleiðingar:

1. Samskipti skóla og foreldra geta orðið erfið.

2. Börnin missa virðingu fyrir starfsfólki skólanna þegar foreldrarnir rétta kennarann heima. Hvernig á barnið að vita að kennarinn segir satt þegar hann segir að 2+2 séu 4. Foreldrarnir segja að kennarinn viti ekki betur þegar hann fer með ósannindi um  trúarbrögð.

Skólinn á að kenna börnunum að sumir trúi þessu og hinu. Hvaða trú kennari eða skólastjóri hefur á ekki að hafa þýðingu. Starfsfólk skólans á að vera það faglegt að þeirra trúarskoðanir eiga ekki að hafa áhrif á starfið.

Ég hef heyrt þau rök að það sé svo margt sem þarf að laga í skólanum áður en farið er útí þetta. Mér finnst þau rök álíka gáfuleg og að kennari hafi ekki tíma til að sýna nemendum virðingu eða senda frá sér eitt bros. Þetta þarf ekki að taka meiri tíma en að sleppa því að vaska upp eftir matinn. Ég held það vanti frekar áhuga en ég vona að það sé ekki vegna trúarskoðanna stjórnenda.

Hvort mín trú er trú á vísindi eða annað skiptir í raun ekki máli. Þegar ég kíki í orðabók og slæ upp orðinu trúarbrögð er yfirleitt talað um trú á æðri máttarvöld. í þeim skilningi er ég ekki trúuð, en aftur á móti trúi ég á margt. Þar má nefna vísindi, ástina, fegurðina manneskjuna og fleira.

Ásta Kristín Norrman, 27.12.2007 kl. 12:42

9 Smámynd: Magnús Þór Jónsson

Sæl Ásta.

Gott að heyra að þú t.d. trúir á ástina, veit ekki til þess að það sé snertanlegt hugtak, en þó efumst við ekki um það - enda svo margt huglægt svo fullkomlega eðlilegt.

Ég satt að segja held að það sé ekki ábyrgt hjá mér að standa hér í ritdeilu á opinberri síðu um trúmál og tengsl kirkju og skólans.  Netið hefur ekki sýnt sig sem miðil sem skilar einhverju í þeirri umræðu.

Ég fullvissa þig bara aftur um það að í skólanum mínum er stöðugt verið að vinna með hagsmuni allra barna fyrir augum, algerlega óháð t.d. litarhafti, greind, áhugasviðum, trú eða nokkru því sem getur verið ólíkt hjá hverjum einstaklingi.  Enda einstaklingsmiðun þau trúarbrögð sem ég trúi á í skólamálum og hef af þeim trúarbrögðum talsverða reynslu og er tilbúinn í umræðu um það hvar sem er og hvenær.

Ég bendi að öðru leyti bara á andsvör menntamálaráðherra varðandi það hvort kristinfræðikennslu eigi að útiloka úr skólum landsins, hún er jú sú sem er að semja lögin og leggja fyrir Alþingi.  Svo kannski ættum við líka að vitna í dómsmálaráðherrann og þá hljótum við að vera sammála um skilninginn.

Trúarbragðafræðsla og þar með kristin fræði eru nú og verða áfram í grunnskólanum.  Það er ég ánægður með, tel það alversta í þessum málum vera ævarandi þögn eða skilaboð um að trúarbrögð "komi skólum ekkert við".  Ég trúi á það að skólar séu partur af samfélaginu sem þeir tilheyra.  Þau trúarbrögð sem eru í samfélaginu verða að fá umfjöllun innan þeirra.  Annað væri algerlega óábyrgt.

Varðandi heimsóknir inn í skólana komu nú í desember einum; slökkviliðið, bókahöfundar, leikhópur sem lék leikrit fyrir yngstu bekkina um álfa og jólasveina (Felix Bergsson), bæjarstjórinn, starfsmaður Gámaþjónustunnar vegna ákvörðunar skólans í umhverfismálum, auk prestsins sem bauð nemendum 5. - 7.bekkjar í heimsókn í kirkjuna á litlu jólunum.

Að auki er hefð hér í skólanum að nemendur í 2. - 4.bekk eru ávalt boðnir í kirkju á aðventunni og því hef ég ekki breytt.  Að sjálfsögðu eru foreldrar upplýstir um það Í ÖLLUM TILVIKUM að slíkar heimsóknir fara í gegnum skólastjóra og þeim sé frjálst að neita því að þiggja þær hjá börnum sínum.  Auðvitað hefur það komið upp í einstaka tilvikum og þá er það leyst algerlega í sátt og samlyndi við foreldra.

Skoðanir mínar ráða engu varðandi það hvaða heimsóknir koma í skólann minn.  Enda reyni ég að boða opið samfélag, fordómalaust.  Ég viðurkenni þó eina fordóma.  Ég er með fordóma fyrir fólki með fordóma.  Ræð bara eiginlega ekki við það, en er stöðugt að reyna.

Ég skora á þig Ásta að lesa nýju grunnskólalögin og finna eitthvað annað í þeim sem við skulum líka ræða.  Ég er til dæmis afar hryggur með að sjá þar ákvæði sem mun að öllum líkindum eyða öllum ferðalögum út fyrir skólalóðir.  Það væri gaman að ræða.

Ég held hins vegar að við verðum bara að vera sammála um að vera ósammála hér Ásta.  Ég vona að þú setjist niður með skólastjóra í skóla barnanna þinna og þið finnið lausn á þeim málum sem þau snerta varðandi trúmál.  Það er nefnilega heila málið, að það verður aldrei hægt að leysa svona mál með hópefli.  Hvert einstakt mál verður að skoða niður í kjölin, í trúmálum eins og ÖLLUM öðrum málum.

Ég hef t.d. gengið í gegnum skilnað og eftir það er ég sannfærður um það að börn sem upplifa skilnað forráðamanna sinna þurfa að fá ákveðna þjónustu til að vinna úr þeirri sorg, og tel AFAR mikilvægt að skólar þeirra viti af slíkum málum.

Hef nefnilega reynslu úr mínu einkalífi og sem starfsmaður skóla um þann vanda sem liggur hjá litlum einstaklingum.  Fáránlegt væri að búa þar til "hóp skilnaðarbarna", heldur skiptir hver einstaklingur máli.

Þess vegna held ég að við ættum bara að ræða málið betur ef þú flytur í Snæfellsbæinn, þann góða bæ vestur á Snæfellsnesi!  

Gleðilegt ár Ásta, til þín og þinna.

Magnús Þór Jónsson, 30.12.2007 kl. 23:44

10 Smámynd: Ásta Kristín Norrman

Takk fyrir athugasemdina og gleðilegt ár. Eg varð að vísu fyrir vonbrigðum með svar þitt, því þú kemur ekki með nein rök fyrir því hvers vegna þú telur rétt að réttur trúaðra til að iðka trú sína á skólatíma eigi að ganga fyrir rétt bars til að vera í skólanum. Þið komið alla tíð með sömu rökin að það þurfi kristinfræði kennslu í skólanum. Þú hlýtur að vera búinn að gera þér grein fyrir því fyrir löngu að það er enginn á móti kristinfræðikennslu. Trúlausir hafa einmitt lagt á það áherslu að það verði góð trúarbragðafræðsla í skólanum og þá fái kristnin og ásatrúin stóran part vegna sögu þjóðarinnar og menningar. Ef þú telur það fordóma að berjast fyrir löglegum rétti allra skólabarna fyrir skólaveru, þá ert þú í vondum málum. Ef þú  leggur að jöfnu heimsókn slökkviliðsins og presta, þá legg ég til að þú talir við lögfræðing bæjarfélagsins og fáir lögfræðilegt álit á stjórnarskrálögunum um trúfrelsi, Grunnskólalögunum og lögum Sameiniðuþjóðanna um mannréttindi. Hvernig er það í þínum skóla, má Sjálfstæðisflokkurinn koma og hafa stund með börnunum í þínum skóla?

Eg er alveg sammála þér um skilnaðarbörnin, þau eiga mjög oft erfitt. Ég er aftur á móti algjörlega á móti að við aðgreinum börnin í skólanum. Mér finnst að allt skólastarf eigi að vera boðlegt fyrir alla. Held líka að það minnki fordóma meðal barna, ef skólinn reynir að leggja áherslu á það sem þau eiga sameiginlegt frekar en það sem skilur þau að. Auðvitað hef ég ekkert á móti að unnið sé í málum þeirra barna sem eiga það erfitt. Eg mundi samt ekki taka upp skilnaðarbörnin sérstaklega, heldur gera það líka aðgengilegt fyrir önnur börn sem kannski líður illa. Ég held að líðan barna sem alast upp í fjölskyldu á barmi skilnaðar séu oft verri en eftir skilnaðinn og það eru örugglega til börn sem hafa það erfitt þó svo að foreldrar séu ekki í skilnaði. Ef þú færð prest til að sinna þessu  í þínum skóla, ert þú ekki að gera jafnt fyrir öll börnin. Þó svo að ég sé sannfærð um að trúarlegt uppeldi geti verið skaðlegt fyrir börn og krakkar eigi að fá að velja sjálf eftir góða fræðslu í trúarbrögðum og trúleysi, þá eru örugglega til krakkar í öllum samfélags og trúarhópum sem hafa það erfitt. Þess vegna held ég að það væri fjárhagslega hagkvæmast, fyrir utan að maður á ekki á hættu að brjóta nein lög, ef maður fær barnasálfræðing eða einhvern sem getur hjálpað öllum börnunum án tillits til trúarbragða.

Þú ert í vafa um hvort netið sé rétti vettvangurinn til að ræða trúmál og skóla. Ástæðan fyrir því að við fórum í þessa umræðu eru þó skrif þín í upphafi. Þú getur verið alveg rólegur, ég er ekki á leið í Snæfellsbæ. Aftur á móti fer ég gjarnan í umræðu við alla sem eru til í að ræða þetta á netinu og rekst ég á áhrifamenn í skólanum, get ég vara ekki látið tækifærið úr hendi mér fara. Auðvitað veit skólafólkið í skóla dóttur minnar hvaða sýn ég hef á þessum málum. Ég geng eins langt þar og ég get án þess að barnið mitt þurfi að líða fyrir að fá rétt sinn virtan. Mér finnst það slæmt að margir foreldrar þurfa að láta trúboð ganga yfir sig og börn sín, vegna þess að þau geta ekkert aðhafst nema eiga það á hættu að börnin verði fyrir aðkasti. Ef þú ferð inná vantru.is getur þú fundið helling af greinum um skóla og kirkju og inná á siðmennt .is eru margar sögur sem foreldrar hafa komið með um yfirgang kirkju í skóla. Þetta er vandamál sem er til staðar, og ég get ekki skilið hvers vegna skólastjórnendur þurf að bíða eftir að Ísland verði líka fellt í Mannréttindadómstólnum. Það ætti að vera áhugamál þeirra sem vinna með börn að börnum líði vel á sínum vinnustað. Þetta er einfalt að laga og ég get bara ekki skilið hvers vegna þið sjáið ekki sóma ykkar í að gera það. Þú segir að í þínum skóla sé það ekki þín prívata trú sem ræður. Hvað er það þá sem hjálpar þér að réttlætir þetta?

Ásta Kristín Norrman, 1.1.2008 kl. 09:53

11 Smámynd: Magnús Þór Jónsson

Sæl Ásta.

Væntanlega heyrðirðu í forsætisráðherranum í gær, legg til að þú bloggir fyrir hann í gær karlangann, virtist hafa trúmál ansi hátt í samfélaginu, allavega fannst mér hann vera á jaðrinum fyrir þá einstaklinga sem ekki aðhyllast kristni.

Þú ert nú líka aðeins farin að snúa út þegar þú ert að benda mér á lögfræðinginn!  Ég er aðeins að draga það upp að allar heimsóknir inn í skólann minn eru lagðar undir mitt mat og þar endar samanburðurinn.  Ég met aðstæður hvert sinn.

Í vor t.d. komu fulltrúar stjórnmálaflokkanna inn á kaffistofurnar og borðuðu í matsalnum með börnunum.  Slíkar heimsóknir eru að mínu mati líka af hinu góða fyrir börnin, að þar fái þau að hitta þjóðþekktar persónur og í framhaldi af því sköpuðust t.d. umræður um lýðræðið.

Ég er ekki að jafna málflutning presta og slökkviliðsmanna.

Hins vegar held ég að þetta verði síðasta svar mitt, því að þú svarar engu af því sem ég bendi þér á, t.d. málflutning ráðamanna eða ósk um að þú skoðið meira í grunnskólanum en trúartengd mál.  Ég sem skólastjóri hef engar forsendur til þess að gera einn málaflokk mikilvægari en annan.  Í skólanum mínum og öllum skólum er gríðarleg breidd nemenda með ólíka styrk- og veikleika og mikill kokteill skoðana, bæði nemenda og forráðamanna.

Ég held ég geti fullvissað þig enn og aftur að ég hef átt afar farsælt starf sem stjórnandi, í Breiðholtsskóla í 8 ár og nú þetta eina og hálfa ár á Snæfellsnesi.  Það tel ég algerlega vera vegna þess að ég legg mig eftir því að öllum líði vel.  Öllum.

Útúrsnúningur þinn um að skilnaðarbörn séu "aðgreind" í mínum skóla er sérkennilegur, miðað við það að þér finnst þau þurfi aðstoð.  Ég er ekki að segja að þau ein eigi að fá aðstoð, eða eigi að vera aðgreind.

Þau eiga að fá aðstoð, sem þau fá í fæstum skólum í dag, því þau eru að ganga í gegnum sorgarferli án þess að fá leyfi til að vera í sorg.  Ég talaði aldrei, aldrei um það að prestar vinni slíka vinnu.  Það hefur aldrei gerst í mínum skóla og ég sé það ekki gerast nema að forráðamenn óski þess, þá að sjálfsögðu skoða ég það.

Enda alltaf heillavænlegast í skólastarfi að vera í góðu samstarfi við forráðamenn.

En nú er nóg komið í bili finnst mér.  En er alltaf til í að tala um annað við þig í grunnskólalögunum.  Trúarbragðafræðsla í dag er mæld sem 2,3% af námi nemenda í grunnskóla.  Kominn tími á að skoða hin 97,7% finnst mér......

Magnús Þór Jónsson, 1.1.2008 kl. 13:15

12 Smámynd: Nanna Katrín Kristjánsdóttir

Gleðilegt ár

Nanna Katrín Kristjánsdóttir, 3.1.2008 kl. 02:16

13 identicon

Sorgleg eru rök þín Magnús Þór. Ég er foreldri 10 ára drengs í grunnskóla þar sem ferðir í kirkju tíðkast rétt fyrir jólin. Ég þori ekki fyrir mitt litla líf að taka strákinn minn út úr þessum heimsóknum, og ástæðan er einföld, ég er hræddur um að hann verði fyrir aðkasti. Mér svíður það að að honum sé logið, mér svíður það að þjóðkirkjan sé að læða inn hjá honum velvilja inn í framtíðina, velvilja til trúar og kirkju. Svo verð ég að reyna leiðrétta bullið sem honum er sagt í þessum heimsóknum. Ég ber ekki virðingu fyrir fólki sem kemur svona fram við börn, hversu oft hefur maður ekki heyrt menn segja ,,ja ég hef mína barnatrú" þetta eru afleiðingar þess sem grunnskólar eru að gera börnum. Þeir eru að læða inn hugmuyndum inn í óþroskað barnið á þeim tíma sem létt er að móta það. Þú sem skólastjóri ættir að velta þessu fyrir þér. Þetta er ljótur leikur, eingöngu gerður til að viðhalda velvilja til kirkjunnar svo áfram megi treysta á peningatreymi til að viðhalda herlegheitunum.

Valsól (IP-tala skráð) 4.1.2008 kl. 03:28

14 identicon

Ástæðan fyrir því að ég segist ekki bera virðingu fyrir fólki sem svona kemur frameins og ég lýsi hér í skeytinu að framan, er einföld. Hvað ef þetta væri Sjálfstæðisflokkurinn sem væri að reyna heilaþvo börnin mín, eða krossinn, eða vottar jehóva, eða vinstri grænir sem væru að reyna móta börn eftir sínum hugmyndum einfaldlega til þess að í framtíðinni yrðu þetta þægir og góðir þegnar þessarra hugmynda. Þetta er ástæðan fyrir því að ég ber ekki virðingu fyrir kirkjunarmönnum sem haga sér svona og svo þér sem manneskju Magnús Þór af því þú styður þetta. Látiði börnin mín í friði!

Valsól (IP-tala skráð) 4.1.2008 kl. 06:48

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband