Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag

Hvað þá Ísland?

Ég hef búið í Noregi og á 2 stelpur sem gengu þar í 1-5 bekk í grunnskóla. Aldrei voru þær settar í kirkju á skólatíma, aldrei þurftu þær að sitja undir sálmasöng í skólanum og aldrei þurftu þær að skera sig úr á nokkurn hátt þar sem þær eru trúlausar. Ég man ekki eftir að nokkurn tíman hafi verið ráðinn prestur eða djálkni í skólann til að sinna skólabörnum í vanda í stað fagfólks. Kannske er það bara vegna þess að norðmenn eru taldir nískir og tíma ekki að vera með svo dýrt starfsfólk í skólanu, en Íslendingar sem eiga aftur á móti svo mikið af peningum geta leyft sér það bruðl. Yngsta dóttir mín hefur aftur á móti gengið í íslenskan skóla frá 1-3 bekk og reynsla mín er sú að það mætti halda að grunnskólinn á Íslandi sé rekinn af þjóðkirkjunni.

í Noregi er til félagskapur sem er svipaður og Siðmennt á Íslandi, en fjárhagur þessara félaga er mjög ólíkur, því í Noregi fær félagið sóknargjöld meðlima sinna og það gerir þeim kleift að reka svona mál fyrir dómstólum. Félagsmenn í Siðmennt verða aftur á móti að borga auka skatt til Háskólans í stað þess að borga til Siðmenntar, sem er því í algjöru fjársvelti.

Það væri óskandi að Ísland þyrfti ekki að fá á sig fleiri dóma í mannréttindadómstólnum og löguðu það sem er greinilega brot á mannréttindum.


mbl.is Mannréttindadómstóll gagnrýnir kristinfræðikennslu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ýta fjölmiðlar undir útlendingahatur?

Undanfarnar vikur hefur verið rætt um það í blöðunum, hversu illa útlendingar haga sér á Íslandi. Fyrir nokkrum vikum var stór grein í Morgunblaðinu með fyrirsögninni " Útlendingar fjölmennari í 4 afbrotaflokkum af 6" og nú síðast var skýrsla um að þeir keyri oftar fullir en aðrir ökumenn.  Í litla textanum í moggagreininni, kom fram að yfirleitt séu útlendingar ekki algengari afbrotamenn, en á árunum 2003-2005 hafi þeir verið það. Þar kom einnig fram að á þeim árum var Kárahnjúkavirkjun að komast af stað og mikið hafi verið um útlenda mótmælendur sem voru með læti uppi við virkjun. Þeir erlendu faraldsverkamenn sem hér eru, eru yfirleitt einstæðir menn á aldrinum 20-35 ára, sem er einnig sá hópur íslendinga sem fremja flest afbrot hér á landi. Í greininni var velt fyrir sér hvernig þetta væri á hinum Norðurlöndunum og kom þá í ljós að þar er bannað að gera svona úrtektir. Íslendingunum fannst  aftur á móti algjörlega úti hött að loka augunum fyrir vandamálinu. 

Eru Norðurlandaþjóðirnar að loka augunum fyrir vandamálinu, eða gera þær sér grein fyrir því að 30 ára norðurlandabúi á meira sameiginlegt með 30 ára Pólverja en hann á með ömmu sinni á elliheimilinu?  Er það til nokkurs annars en að skapa meira útlendingahatur að draga fram þessar upplýsingar. Það kemur ekkert fram hvort það séu útlendir mótmælendur, ferðamenn eða nýbúar á Íslandi, sem eru að framkvæma þessa glæpi. Samt er rætt við útlendingastofu til að finna orsökina.

Þetta minnir mikið á upplýsingar um hverjir fengu lungnabólgu í London á 19. öld. Þar kom fram að karlmenn með pípuhatta fengu síður lungnabólgu en aðrir karlmenn. Það var þó ekki  pípuhatturinn sem kom í veg fyrir lungabólguna, heldur voru þeir með pípuhatta yfirleitt efnameiri og bjuggu við betri aðstæður. 


Reyklaus – Trúlaus

Til hamingju Island. Loksins er runninn upp sá dagur þegar réttindi þeirra sem ekki vilja lifa í tóbaksreyk eru orðin hærri rétti reykingarmanna til að púa reyk yfir þá sem ekki reykja. Hverjum hefði dottið þetta í hug fyrir 20 árum, þegar kasóléttar mömmur sátu með öskubakkann á bumbunni og foreldrar púuðu sígarettu í framsætum bifreiða og það eina sem gat fengið þau til að taka tillit til barnanna afturí var ef svo óheppilega vildi til að börnin köstuðu upp yfir foreldrana. Mörgum finnst það jafnvel enn í dag algjör frekja að fara framá að fá að borða og skemmta sér í reykfríu umhverfi, en mikill árangur hefur náðst í dag þegar lög banna þennan ófögnuð á almanna færi.

Þetta gerir mig svo bjartsýna og glaða að ég fer ósjálfrátt að hugsa til þess að það verði kannski ekki sjálfsagt mál eftir nokkur ár að þjóðkirkjan fái að vaða yfir alla án tillits til þeirra sem hafa aðra trú eða lífssýn. Börn gætu gengið í skóla án trúarlegs áreitis. Forsetinn okkar og þingmennirnir, sem ekki tilheyra allir þjóðkirkjunni, þyrftu ekki að hlusta á guðþjónustu mörgu sinnum á ári. Sálfræðingur, geðhjúkrunarfræðingur eða aðrir sem hafa til þess menntun, standa öllum sjúklingum og aðstandendum til boða á sjúkrahúsum þegar áföll og erfiðleikar steðja að. Fólk þarf ekki að sitja auðum höndum heila rigningarhelgi vegna þess að hluti þjóðarinnar er að iðka trú sína. Hægt væri að flytja til frídaga svo þeir nytust fólki betur, til dæmis þá frídaga sem koma upp í miðri viku væri hægt að flytja til föstudags. Öll trúar og lífsskoðunarfélög verði jafn rétthá og almenningur sem ekki tilheyrir þjóðkirkjunni þarf ekki að sjá á eftir skattpeningum sínum í söfnuð sem þeir hafa ekkert að sækja til. Það væri ekki til nein þjóðkirkja, heldur gæti fólk haft sína söfnuði og rekið þá eins og hver önnur félög. Munum við Íslendingar einhvern tíman sjá einhvern af okkar afreksmönnum í íþróttum taka gull á ólympíuleikum væri kannski til þjóðsöngur sem allir gætu sungið, með gleði í hjarta.

Ég veit að þetta er fjarstætt, en var það ekki jafn fjarstætt fyrir 20 árum að við gætum farið á ball, fengið okkur í glas og dansað án þess að eiga á hættu að fá sígarettuglóð í andlitið.


Ómanneskjulegt samfélag

 Hvernig er að alast upp í þjóðfélagi þar sem lífsskoðanir mans eru ekki virtar til jafns við þá sem ríkið hefur ákveðið að skuli ríkja? Dóttir mín er átta ára gömul og það sem hefur valdið mestum vandræðum, leiðindum og vanlíðan hjá henni síðan hún byrjaði í skólanum eru trúmál. Ekki hafði hún verið lengi í skólanum þegar ákveðið var að halda skemmtun fyrir foreldra og áttu yngstu börnin að syngja lag. Kennarinn hafði fengið upplýsingar um að dóttir mín var ekki trúuð, en þrátt fyrir það, ákveður hún að börnin skuli syngja lagið "Eg er furðuverk sem guð bjó til" sem Rut Reginalds gerði frægt fyrir mörgum árum. Af öllum þeim aragrúa af skemmtilegum barnalögum var sem sagt ekki hægt að velja lag sem öll börnin í bekknum gátu sungið með gleði og ekki fundið sig lítilsvirt.

Síðan byrjaði kristnifræðikennslan og þá byrjaði ballið. Dóttir mín hafi lært það heima hvernig maðurinn og dýrin urðu til, en þegar hún kom heim úr fyrsta kristnifræðitímanum, sagði hún mér að kennarinn hafi sagt að guð hafi skapað hana og allan heiminn, sólina tunglið og allt sem væri til. Þetta setti stelpuna í mjög erfiða aðstöðu. Átti hún að trúa því sem mamma, pabbi og stóru systur hennar sögðu, eða átti hún að trúa kennaranum. Henni fannst líklegra að heimilisfólkið hefði rétt fyrir sér, en henni fannst þó líka skrýtið að kennarinn væri að segja vitleysu. Í kristnifræðitímum spunnust miklar umræður og þar sem dóttir mín er alin upp erlendis, töldu hin börnin að þetta fólk í útlandinu væri bara svona vitlaust að það væri bara ekki búið að heyra um guð. Þetta setti stelpuna í þónokkurn vanda, því nú varð hún að rökræða við heilan bekk um trúmál og það er meira en hægt er að ætlast til af 6 ára gömlu barni, sem þar að auki talar bjagaða íslensku. Nú hafa börn á þessum aldri mikla þörf fyrir að setja sig í hópa. Til dæmis er eitt það fyrsta sem börn í Hafnarfirði verða að gera upp við sig þegar þau byrja í skóla, er hvort þau séu FHingar eða Haukarar. Þarna var dóttir mín ein í hóp og það held ég að sé stór orsök fyrir því að hún var útfryst í bekknum.

Rétt fyrir jól fékk ég miða með dóttur minni heim. Þar stóð að þau mættu koma í skólann með smákökur og kók því þau ætluðu að gera sér glaðan dag. Þennan saman dag mundu þau svo líka fara í kirkju þar sem yrði barnamessa. Þetta setti okkur í mjög erfiða aðstöðu, svo ég lét stelpuna velja hvort hún vildi fara í skólann, kirkjuna og allan pakkann, hvort hún vildi fara í skólann og fara svo heim þegar krakkarnir færu í kirkjuna eða hvort hún vildi vera heima. Hún valdi að vera heima, því ef hún færi heim úr skólanum, mundu krakkarnir fara að spyrja og það sama mundi gerast ef hún færi með í kirkjuna. Þetta varð til þess að hún missti af þeim degi, þegar krakkarnir fengu að taka með sér smákökur og gosdrykk.

Einn daginn þegar hún var komin með hjálm, legg, hné og olnbogahlífar og var að fara út á línuskauta, sagði hún mér að einhverjir krakkar í bekknum hennar hefðu sagt að það væri hættulegt fyrir hana að fara á línuskauta, því þar sem hún trúði ekki á guð, mundi hann ekki passa hana. Þess vegna væri betra fyrir hana að fara ekki niður brekkur á línuskautunum. Hún var því að velta því fyrir sér hvort ekki væri betra að taka kristna trú, svona í viðbót við hjálminn og hinar hlífarnar.

Ég sagði henni að nauðsynlegt væri fyrir alla krakka á línuskautum, hvort sem þau væru kristin eða ekki að fara varlega og vera ekki að fara niður brattar brekkur sem þau veldu ekki. Við fórum svo að ræða um guð og komumst að þeirri niðurstöðu að ef hann væri til, þá gæti hann ekki verið  góður guð ef hann  léti krakka detta bara vegna þess að þau tryðu ekki á hann.

Það er svo algengt að dóttir mín þurfi að svara fyrir trúmálin sín að það getur ekki talist eðlilegt. Allt frá því að hún sé bara heimsk og viti ekkert um guð upp í svona hræðsluáróður að hún sé ekki örugg í leik nema trúa á guð. Börnin hafa þetta frá fullorðnum og mikið af því kemur frá skólanum þar sem kristinfræðin er í raun trúboð. Ég varð aldrei vör við þetta í Noregi eða Svíþjóð þegar eldri stelpurnar voru að alast upp. þær þurftu ekki að skéra sig úr á nokkurn hátt, enda voru trúmál lítið til umræðu hjá börnum á barnaskólaaldri. Að vísu þá var venjan að skólaslit væru haldin í kirkjunni. Þar sem mér fannst ekki hægt að eyðileggja þennan gleðidag sem skólaslit eiga að vera með því að þvinga börnin í kirkju, hringdi ég í bæjarfélagið og spurði hvernig túlka bæri lögin um trúfrelsi og jafnrétti í skólum. Það tók bæjarstjórann 3 mánuði að svar þessari spurningu, en síðan voru skólaslit bönnuð í kirkjum í því bæjarfélagi.

Ég held því fram að börn á barnaskólaaldri sem ekki trúa á guð eigi á hættu að verða fyrir aðkasti vegna þessa. Er það svo mikilvægt fyrir þjóðkirkjuna að troða sínum áróðri á börn sem eru alltof ung og óþroskuð til að geta af nokkru viti tekið afstöðu til trúmála, að það réttlæti þessa ómanneskjulegu meðferð.

 

 


Leyfið börnunum að koma til mín, en þvingið þau ekki!!

Fyrir nokkru rakst ég á bloggumræður sem mér fannst skemmtilegar. http://alit.blog.is/blog/alit/entry/211056/  Fylgjendur kristilegra sálgæslu í skólum ræddu þar við trúleysingja um hvort leyfa ætti þjóðkirkjunni að stunda sálgæslu í skólum landsins. Mörg stór orð féllu og voru trúleysingjar sakaðir um ofstæki. Þegar ég slæ orðinu ofstækisfullur upp í orðabók, sé ég að það þýðir; ”sá sem heldur ákaft fram einstrengilegri skoðun”. Það er í mínum huga sá sem heldur fram sínum skoðunum án þess að hlusta á rök annarra. Þar sem lokað var fyrir umræðurnar á blogginu, tek ég þær upp aftur hér á mínu bloggi, því velferð barna er mér mikið hjartans mál. Mér þætti því mjög vænt um að fá fram góðar rökræður, án ofstækis þar sem velferð barna er höfð að leiðarljósi en ekki þörf fyrir að stjórna öðrum. Ég dreg fram nokkur rök sem komu fram, bæði með og á móti kristinni sálgæslu í skólum og vonast ég til að það geti orðið skemmtilegar umræður. Meðal raka sem sett voru fram á móti kristilegri sálgæslu í skólum voru:

1. Hún leiðir til mismunar á börnum. Ef veitt er meiri þjónusta til vissra barna mun það koma niður á þjónustu til þerra sem ekki geta notfært sér hana.

2. Gæði þeirra þjónustu er ekki nægjanleg vegna þess að prestar og djáknar eru ekki eins vel hæfir til þessara starfa og sálfræðingar og félagsráðgjafar.

3.Þetta er óheyrilega dýr aðstoð sem hefur verið kostuð af almanna fé og meiri árangur næst með því að nota þessa fjármuni á annan hátt.

4.Þetta brýtur öll lög um trúfrelsi, þar sem þessi sálgæsla telst vera trúboð, sem er bönnuð í skólum.

5. Leiðir til vanlíðunar hjá börnum, þar sem settur er fókus á hvað skilur börn að í stað þess að fókusera á hvað þau eiga sameiginlegt. Getur þar af leiðandi stuðlað að einelti og meiri vanlíðunar.

Þau rök sem hafa komið frá þeim sem vilja trúarlega sálgæslu inní skólana eru:

1. Börnunum líður svo illa og það réttlætir að gripið sé til allra ráða.

Trúleysingjar spurðu þá hvort það væri réttlætanlegt að önnur trúfélög væru með sálgæslu í skólum, en því hefur ekki verið svarað.

2. Meirihluti íslendinga eru kristnir og það réttlætir að gengið sé á rétt minnihlutans.

 Í mannréttindasáttmála sameinuðu þjóðanna er mikið rætt um réttindi minnihlutahópa. Þeim þjóðum sem er umhugað um að teljast með siðuðum þjóðum, leggja sig fram við að gæta hagsmuna minnihlutahópa. Þar má nefna réttindabaráttu samkynhneigðra og ýmissa þjóðarbrota. Ef ekki væri rétt að gæta hagsmuna minnihluta hópa, hvað finnst ykkur þá um réttindi kristna í t.d. Íran? Vilja Íslendingar teljast með siðuðum þjóðum?

3. I löndum trúleysingja eru mannréttindi brotin og þar af leiðandi á að hindra að trúleysingjar nái fram sínum réttindum.

Þarna er verið að bera Island saman við einræðisríki, þar sem ákveðum skoðunum er þvingað uppá fólk og fólk getur lent í fangelsi og jafnvel verið drepið ef það gengst ekki við þeim. Þetta er nokkuð sem húmanistar fordæma. Þegar við berum saman lífskjör í mismunandi löndum, væri því kannski betra að við aðgreinum þá sem eru þvingaðir til trúleysis og þeirra sem eru það af fúsum og frjálsum vilja.

Ef við skoðum listann yfir þjóðir sem hafa mestu velmegun í heiminum (lífslengd, fjöldi les og skrifandi fullorðinna, menntun og tekjur) kemur í ljós að þau 5 lönd sem eru á toppinum eru einmitt þau lönd sem státa af flestum frjálsum trúleysingjum (Noregur, Svíþjóð Holland, Ástralía og Kanada). Af þeim 25 löndum sem liggja á toppi þessa lista eru aðeins Írland og USA sem hafa mjög fáa trúleysingja. Í þeim 50 löndum sem liggja á botninum eru aftur á móti varla til frjálsir trúleysingjar.

Ef við berum Bandaríkin, sem eru mjög kristin og hlutfall trúleysingja er mjög lágt(aðeins 3-7%), saman við önnur lýðræðis iðnaðarríki eins og Kanada, Japan og Evrópuríkin, kemur í ljós að USA hefur flesta morðingja, fátæka, erfiða offitusjúklinga, heimilislausa og er þar að auki eina landið sem heldur ennþá fast við dauðadóm. Það er líka eina landið sem ekki bíður sínu fólki uppá heilbrigðisþjónustu fyrir alla. Þetta ásamt fleiri áhugaverðum upplýsingum, kemur allt fram í skýrslum sem hægt er að finna í CIA World Factbook 2004 eða https://www.cia.gov/library/publications/the-world-factbook/index.html

I SÞ World Social Situation Report 2003 kemur líka fram að af 40 fátækustu þjóðum heims voru öll löndin nema Víetnam mjög trúuð og með mjög fáa frjálsa trúleysingja. Þessi lönd eru einnig með flesta ólæsa íbúa jarðar. Jafnrétti er mest í löndum með flesta frjálsa trúlausa samkvæmt skýrslum frá SÞ Human Development Reports frá 2004 og staða minnihlutahópa eins og samkynhneigðra er einnig best þar. Það eina sem trúuðu löndin eiga vinninginn í er lág sjálfsmorðstíðni, en þar sem trúaðir telja það synd að stifta sig lífi, má ætla að sum dánarvottorðin séu fölsuð og tölurnar séu því í raun hærri í kristnu löndunum.

Hvernig stendur þá á því að fólk viðist hafa það betra án trúar. Velmegun er árangur stjórnafars, fjárhagslegra og félagslegra ákvarðanna. Ef þær eru teknar af skynsemi og með hag fólksins að leiðarljósi, eru meiri líkur til að þær leiði til velmegunar, en ef ákvarðanir eru teknar eftir hvað sé guði þóknanlegt( samanber baráttan gegn AIDS i kaþólskum löndum).

Guðstrúin getur verið traust og styrkur fyrir marga. Trúleysingjar eru ekki að berjast á móti guðstrú. Það sem við aftur á móti teljum mikilvægt er að kirkjan sé aðskilin, bæði frá stjórnmálum og uppeldisstofnunum og trúin sé einkamál hvers og eins og hún sé ræktuð á frítíma.


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband