Velkomin Janna

Janna 507Ég vil heilsa velkomna í fjölskylduna litlu fósturdóttur okkar hana Jönnu. Hún er 18 mánaða gömul og ætlar að búa hjá okkur til frambúðar. Janna er yndisleg litil stelpa sem er næstum alltaf glöð og ánægð. Ástæðan fyrir því að við hjónin fengum svona litla dóttur þrátt fyrir að vera komin á  gamals aldur, er sú að hún hefur fæðingargalla og geta foreldrar hennar ekki annast hana. Ég kynntist henni í vinnunni síðastliðið haust, þar sem ég hafði hjúkrunareftirlit á sambýlum fyrir fatlaða í Gautaborg, svo þetta er búið að vera langt ferli, en hún flutti til okkar fyrir mánuði síðan. Janna tók hug minn allan þegar ég sá hana fyrst, en sem betur fer er ég ekki vön að falla svona gersamlega fyrir sjúklingunum mínum. Það tók dálítinn tíma áður en ég gat kynnt hana fyrir restinni af fjölskyldunni, en hún var fljót að bræða hjarta þeirra líka. Manninum mínum leyst vel á að verða ungbarnapabbi aftur, Ylva sem er 9 ára og búin að þrasa um að fá litla systur, er yfir sig ánægð og táningarstelpunum finnst gaman að fá að vera í mömmuleik. Það eina sem er kanski galli er að fjölskyldan hefði þurft að fá fleiri karlmenn á heimilið. Tommie er nú eini karlinn með eiginkonu, 4 dætur og eina tík, en tengdasynirnir eru farnir að láta sjá sig svo þetta á örugglega eftir að jafnast út.

Janna 492

Fæðingargalli Jönnu er nokkuð sjaldgæfur, en kallast Cornelia de Langes syndrom eftir lækni sem greindi þetta fyrst og eru ekki nema um1-2  börn af hverjum 100 000 fæðingum. Þar sem Janna er svo ung er erfitt að segja til um hvernig hennar fötlun kemur til með að verða, en hún hefur heilabilun sem veldur heyrnar og sjónminnkun. Hún er nýbúin að fá heyrnartæki, en er ekkert ánægð með þau og vill helst ekki hafa þau. Við þrjóskumst þó við, því það hefur mikil áhif á talþroskan hjá henni að hún heyri hvað við segjum, en tal og hreyfiþroski er á við 6 mánaðar gamanlt barn. Hún borðar ekkert ennþá, stingur öllu í munninn nema því sem hægt er að borða. Hún er því með PEG eða slöngu í magan og fær alla næringu í gegnum hana. Við vonumst þó til að hún geti farið  að borða þegar búið er að gera við góminn, en hún er holgóma.

Janna 477

 

Ég geri mér grein fyrir því að það er mjög erfitt að eignast fatlað barn. Fyrir okkur er þetta þó öðruvísi, þar sem við veljum sjálf að eignast faltað barn og ef hún væri ekki fötluð, hefði hún ekki verið í þörf fyrir fósturheimili svo þá hefðum við ekki fengið hana. Flestir foreldrar heilbrigðra barna sem líta til baka finnst ungbarnaárið hafa liðið allt of hratt. Þetta er öðruvísi hjá okkur því það hefur tekið Jönnu 18 mánuði að verða 6 mánaða. Hún er ennþá bara lítið ungabarn, þar sem hún er ekki nema rétt um 9 kg, er að læra að sitja og er allveg jafn yndisleg og 6 mánaða börn eru vön að vera. Það er líka mjög spennandi að sjá hvernig hún þroskast. Við vitum nokkurn vegin hvernig heilbrigð börn verða, en ekki hvernig Janna verður. Það er ekki víst hvort hún muni læra að tala, ganga eða borða, en við erum bjartsýn og hvernig sem fer erum við viss um að það mun verða gaman að sjá hana vaxa upp og verða fullorðna. Hvort hún hefur vitræna skerðingu mun koma í ljós. Það er of snemmt að segja til um það ennþá. Hún er mjög forvitin, hefur mikla þörf fyrir líkamlega snertingu, elskar að láta halda á sér og leika við sig. Hún hefur góða einbeitningu, svo ég er bjartsýn á framtíðina. Annað okkar mun geta verið heima með henni í framtíðinni, en núna í byrjun erum við bæði heima. Þetta er mikið lúxus líf. Vorið er komið hér í Vänersborg, það er 17 stiga hiti og við liggjum í sólbaði úti á trambólínunni og  njótum þess að vera til.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Hólmdís Hjartardóttir

3 íslendingar eru greindir með Cornelia de Lange.

Hólmdís Hjartardóttir, 24.4.2008 kl. 15:07

2 identicon

Til hamingju með stúlkuna Ásta, þú ert alger hetja.

DoctorE (IP-tala skráð) 24.4.2008 kl. 15:15

3 Smámynd: Ásta Kristín Norrman

Þakka þér DoktorE. Það er misskilningur að ég sé einhver hetja, en ég nota tækifærin þegar þau bjóðast. Janna gefur okkur leið til að hafa annað foreldrið heima og það er vel hugað að fjölskyldum með fötluð börn hér í Svíþjóð, svo þetta er aðgerð sem við öll vinnum á.

Ásta Kristín Norrman, 25.4.2008 kl. 04:04

4 Smámynd: Sigrún Ósk Arnardóttir

Innilega til hamingju með nýjasta fjölskyldumeðliminn!

Sigrún Ósk Arnardóttir, 25.4.2008 kl. 19:12

5 Smámynd: Guðrún Sæmundsdóttir

Yndisleg stelpa, til hamingju með hana

Guðrún Sæmundsdóttir, 1.5.2008 kl. 12:05

6 identicon

Til hamingju með nýjasta fjölskyldumeðlimin Liddý mín. Þú ert greinilega náungakærleikurinn í verki. Ég hlakka til að fá fleiri fréttir á síðunni þinni.

Bestu kveðjur,

Kiddý

kristjana (IP-tala skráð) 19.5.2008 kl. 00:46

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband