10.6.2008 | 10:18
Megrun er fitandi!!
Offita er algengasta og sennilegast hættulegasta heilbrigðisvandamálið í dag. Þrátt fyrir að offita kosti samfélagið gríðalega fjármuni og orsaki líðandi fyrir fjölda fólks, fær þessi hópur ekki þá faglegu hjálp sem hann ætti að fá. Sennilega er það vegna þess að fólk með offitu er mjög lítilsvirtur sjúklingahópur. Hellingur af fólki með mismundandi menntun og hæfni, hefur atvinnu af og þénar góðan pening á að gefa þeim sem þjást af þessum sjúkdómi, stórhættuleg ráð. Lítið sem ekkert eftirlit er á gæðum þeirra þjónustu sem er í boði. Heilbrigðisstofnanir á vegum ríkissins grípa ekki inn fyrr en í óefni er komið. Þrátt fyrir að heróinsjúklingur eigi hlutfallslega meiri möguleika á að ná bata en þeir sem þjást af offitu, er stuðningurinn og meðferðarúrræði mjög fáttækleg. Fólki er sagt að "breyta um lifnaðarhætti", sem þýðri yfirleitt að fólk á að borða ca 12-1500 hitaeiningar á dag og hreyfa sig meira. Að missa mörg kíló er verkefni sem tekur langan tíma. Þrátt fyrir að tæknin sé fyrir hendi og er ekki dýrari en að taka hjartalínurit, fær fólk allmennt ekki möguleika á að komast að því hvort það er á réttri leið eða ekki. Fólki er boðið uppá viktun, oftast einu sinni í viku og fær fínar uppskriftir af sveltfæði, en hvort það er að missa vöðva eða fitu, er enginn sem skiptir sér af. Oft er árangurinn sá að vöðvamassinn minnkar og gera þar af leiðandi líkamann betur í stakk búinn til að safna á sig ennþá meiri fitu.
Ég er ein af þeim mörgu konum sem hafa lagt á sig nokkur kíló við að hætta að reykja, ganga með börn og fara eftir miður góðum leiðbeiningum. Ég hef reynt margar leiðir til að losna við þessi kíló, en hef bara orðið feitari við það. Ég hef yfirleitt tekið tarnir, fengið æfingarprógram og matarlista og samviskusamlega reynt að fylgja leiðbeiningunum. Ég hef náð af mér nokkrum kílóum, en gefist svo upp og farið á sælgætisfyllirí og hætt öllu. í haust ákvað ég að áður en ég yrði 50 ára, skyldi ég vera komin í kjörþyngd. Ég hafði 18 mánuði á mér og 15 kíló að ná af mér. Eg ákvað að vera bíllaus þar til markmiðinu væri náð. Ég keypti mér góða kerru sem ég gat sett aftaní hjólið og keypt inn og útrétt fyrir fjölskylduna. Ég hafði aðgang að bíl í vinnunni, en það voru ekki nema 5-10 kílómetrar sem ég þurfti að keyra á dag, svo ég ákvað að ganga í staðinn. Ég gekk því eða hjólaði í 2-3 tíma á dag. Samtímis keypti ég mér inngöngu í aðhaldsklubb þar sem ég gat haldið dagbók og fylgst með hversu mörgum hitaeiningum ég brenndi og hvað ég borðaði margar. Mér var ráðlagt að borða 1300 hitaeiningar og ekki bæta upp með mat ef ég hreyfði mig mikið. Maður hefði nú haldið að þetta væri leiðin til að ná árangir. Ég léttist um 4 kíló, en stoppaði þar. Í vor voru aðstæður mínar þannig að ég gat notað meiri tíma fyrir sjálfa mig, svo þá ákvað ég að æfa af kappi og ná af mér síðustu 10 kílóunum. Ég byrjaði á æfingarstöðinni hérna í bænum, en þar er prógram fyrir þá sem vilja léttast. Þann 16. apríl fór ég svo í fitumælingu, fékk matarlista og æfingarprógram. Fitumælingin kom mér óþægilega á óvart. Þrátt fyrir að ég hafði verið svona aktiv í allan vetur, var ég með mjög lítinn vöðvamassa, eða 4 kílóum minna en var eðlilegt fyrir minn aldur og þyngd. Ég pældi ekki meira í því, heldur byrjaði á fullu. Ég borðaði 1 máltíð á dag og drakk svo próteindrykki með, samtals 1000 hitaeiningar á dag. Eg æfði mun meira en ég átti að gera, eða styrktaræfingar x3 í viku og þolæfingar á hverjum degi og brenndi að meðaltali ca 3000 hitaeiningum á viku á æfingarstöðinni. Eftir tæpar 3 vikur fór ég svo í fitumælingu aftur. Ég hafði losnað við 1,5 kíló af fitu, en það sem verra var, 2,7 kíló af vöðvum voru horfin líka. Ég fékk sjokk. Ég var búin að lifa á mjög hollri fæði og æfa á fullu, en samt missti ég vöðva. Þá gerði ég mér grein fyrir hvers vegna ég var með minni vöðva en gengur og gerist áður en ég byrjaði á æfingarstöðinni. Eg hafði svelt burtu vöðvana og gert líkaman hæfari til að safna á sig fitu. Og það var sennilega það sem ég hafði gert í öllum átakskúrunum sem ég hafði stundað í gegnum árin. Ég varð reið. Hvað á fólk sem veit ekki hvað það er að gera, með að selja mér ráðleggingar sem virka þveröfugt og eyðileggja um leið fjölskyldulífið. Vita þau ekki hvernig er að alast upp í fjölskyldu þar sem mamman er í sífellu átaki.
Viktin fór á haugana því hún sagði mér í raun ekki neitt. Ég ákvað að borða það sem mig langaði í og hætta að telja hitaeiningar. Halda áfram æfingunum og mæla mig aftur eftir 4 vikur. Fyrstu dagana borðaði ég helling af sælgæti, en hætti fljótt á sælgætisfylliríinu. Það var auðveldara að hætta eftir einn súkkulaðibita þegar ég vissi að ég gat fengið mér aftur þegar ég vildi. Ég fór að baka með kvöldkaffinu og heimilislífið varð mun skemmtilegra. Ég fékk mér brauð með hnetusmjöri án þess að fá samviskubit. Í síðustu viku var svo komið að mælingu aftur og í fyrsta skiptið í þessari áratugalöngu baráttu, vissi ég að ég var á réttri leið. Ég hafði að vísu bara misst 0,6 kíló fitu, en bætt á mig 1,9 kíló vöðvum. Nú ætla ég að halda áfram með æfingarnar eins og áður, reyna að borða hollari fæði en ég hef gert síðustu 4 vikur, en aldrei telja hiteiningar aftur. Offita er mjög alvarlegur sjúkdómur. Fyrir utan fylgifiska eins og til dæmis sykursýki og hár blóðþrýstingur þá verður allt stoðkerfið fyrir miklu álagi.
Offita kostar samfélagið mikla fjármuni og sjúklingana mikið líðandi. Það er auðvelt að hugsa sér batahorfur sjúklings í kjörþyngd sem öklabrotnar við batahorfur sjúklings með 50 kílóa yfrivikt með eins öklabrot. Það er mun erfiðara að ná árangri í baráttunni við þennan sjúkdóm, en við aðra ofneyslusjúkdóma, því mat verðum við öll að nota, en stuðningur við þennan hóp er skammalega lítill.
Lífstíll | Breytt s.d. kl. 10:52 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (16)
24.4.2008 | 14:57
Velkomin Janna
Ég vil heilsa velkomna í fjölskylduna litlu fósturdóttur okkar hana Jönnu. Hún er 18 mánaða gömul og ætlar að búa hjá okkur til frambúðar. Janna er yndisleg litil stelpa sem er næstum alltaf glöð og ánægð. Ástæðan fyrir því að við hjónin fengum svona litla dóttur þrátt fyrir að vera komin á gamals aldur, er sú að hún hefur fæðingargalla og geta foreldrar hennar ekki annast hana. Ég kynntist henni í vinnunni síðastliðið haust, þar sem ég hafði hjúkrunareftirlit á sambýlum fyrir fatlaða í Gautaborg, svo þetta er búið að vera langt ferli, en hún flutti til okkar fyrir mánuði síðan. Janna tók hug minn allan þegar ég sá hana fyrst, en sem betur fer er ég ekki vön að falla svona gersamlega fyrir sjúklingunum mínum. Það tók dálítinn tíma áður en ég gat kynnt hana fyrir restinni af fjölskyldunni, en hún var fljót að bræða hjarta þeirra líka. Manninum mínum leyst vel á að verða ungbarnapabbi aftur, Ylva sem er 9 ára og búin að þrasa um að fá litla systur, er yfir sig ánægð og táningarstelpunum finnst gaman að fá að vera í mömmuleik. Það eina sem er kanski galli er að fjölskyldan hefði þurft að fá fleiri karlmenn á heimilið. Tommie er nú eini karlinn með eiginkonu, 4 dætur og eina tík, en tengdasynirnir eru farnir að láta sjá sig svo þetta á örugglega eftir að jafnast út.
Fæðingargalli Jönnu er nokkuð sjaldgæfur, en kallast Cornelia de Langes syndrom eftir lækni sem greindi þetta fyrst og eru ekki nema um1-2 börn af hverjum 100 000 fæðingum. Þar sem Janna er svo ung er erfitt að segja til um hvernig hennar fötlun kemur til með að verða, en hún hefur heilabilun sem veldur heyrnar og sjónminnkun. Hún er nýbúin að fá heyrnartæki, en er ekkert ánægð með þau og vill helst ekki hafa þau. Við þrjóskumst þó við, því það hefur mikil áhif á talþroskan hjá henni að hún heyri hvað við segjum, en tal og hreyfiþroski er á við 6 mánaðar gamanlt barn. Hún borðar ekkert ennþá, stingur öllu í munninn nema því sem hægt er að borða. Hún er því með PEG eða slöngu í magan og fær alla næringu í gegnum hana. Við vonumst þó til að hún geti farið að borða þegar búið er að gera við góminn, en hún er holgóma.
Ég geri mér grein fyrir því að það er mjög erfitt að eignast fatlað barn. Fyrir okkur er þetta þó öðruvísi, þar sem við veljum sjálf að eignast faltað barn og ef hún væri ekki fötluð, hefði hún ekki verið í þörf fyrir fósturheimili svo þá hefðum við ekki fengið hana. Flestir foreldrar heilbrigðra barna sem líta til baka finnst ungbarnaárið hafa liðið allt of hratt. Þetta er öðruvísi hjá okkur því það hefur tekið Jönnu 18 mánuði að verða 6 mánaða. Hún er ennþá bara lítið ungabarn, þar sem hún er ekki nema rétt um 9 kg, er að læra að sitja og er allveg jafn yndisleg og 6 mánaða börn eru vön að vera. Það er líka mjög spennandi að sjá hvernig hún þroskast. Við vitum nokkurn vegin hvernig heilbrigð börn verða, en ekki hvernig Janna verður. Það er ekki víst hvort hún muni læra að tala, ganga eða borða, en við erum bjartsýn og hvernig sem fer erum við viss um að það mun verða gaman að sjá hana vaxa upp og verða fullorðna. Hvort hún hefur vitræna skerðingu mun koma í ljós. Það er of snemmt að segja til um það ennþá. Hún er mjög forvitin, hefur mikla þörf fyrir líkamlega snertingu, elskar að láta halda á sér og leika við sig. Hún hefur góða einbeitningu, svo ég er bjartsýn á framtíðina. Annað okkar mun geta verið heima með henni í framtíðinni, en núna í byrjun erum við bæði heima. Þetta er mikið lúxus líf. Vorið er komið hér í Vänersborg, það er 17 stiga hiti og við liggjum í sólbaði úti á trambólínunni og njótum þess að vera til.
Fjölskylda og vinir | Breytt s.d. kl. 15:15 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
17.12.2007 | 10:55
Opið bréf til kristinna ættingja frá trúlausri móður
Það hefur tekið mig tíma að átta mig á því hvers vegna það særir mig svo mikið að sum ykkar getið ekki virt rétt minn til að ala börnin mín upp í trúleysi. Það var ekki fyrr en ég áttaði mig á því hve nátengd hugtökin ást og virðing eru sem ég gerði mér grein fyrir því. Það er næstum því ómögulegt að elska manneskju nema að virða hana. Hluti af því að virða manneskju er að virða skoðanir hennar og lífssýn. Nú er ég ekki að tala um að allir verði að vera sammála, heldur aðeins að virða rétt sinna nánustu til að vera ósammála.
Ég hef verið ásökuð um að vera með öfgar. Mínar skoðanir eru ekki skoðanir meirihluta landsmanna, en þær eru ekki öfgakenndari en svo að þær njóta verndar Íslensku stjórnarskrárinnar og alþjóða mannréttindalaga. Þær ganga ekki á rétt annarra, en þegar ég ræði þessa hluti, get ég orðið mjög áköf þar sem þær eru mikilvægar fyrir mig. Það sem ég fer framá er að fá að hafa þær. Eru allir öfgafullir, sem ekki fylgja meirihlutanum?
Þetta hefur ekkert að gera með hverrar trúar maður er, því að hellingur af trúuðu fólki stendur með okkur trúlausum í baráttu okkar. Ágætt dæmi um það er http://omarragnarsson.blog.is/blog/omarragnarsson/entry/389825/ blogg Ómars Ragnarssonar sem er kristinn, en virðir samt skoðanir þeirra sem ekki eru kristnir. Ekki frekar en að hommar krefjast þess að allir hetro gerist hommar, krefjast trúlausir þess að kristnir gerist trúlausir eða fatlaðir, að ófatlaðir setjist í hjólastól. En siðgæði þjóðarinnar endurspeglast oft í hvernig réttindi minnihlutahópa eru virt í samfélaginu.
Það er klárt að ef mínir nánustu geta ekki virt mín réttindi sem ég hef samkvæmt stjórnarskránni, þá tek ég það persónulega. Nákvæmlega sama og sjúklingur tekur því persónulega ef fjölskyldan áfellist viðkomandi fyrir að vera ímyndunarveik eða með aumingjaskap en ekki alvarlegan sjúkdóm.
Ef þið teljið að einhver kennari sé betur til þess fallin að dæma um hvað sé barninu mínu fyrir bestu en ég sem móðir þess, tel ég það sem tákn um að þið teljir mig vanhæfa sem móðir. Þegar kom að því að skíra barnið mitt, urðum við foreldrarnir að taka afstöðu til trúmála. Okkur finnst kristið siðgæði ekki nógu gott til að notast við þegar kemur að uppeldi barna. Þess vegna bjuggum við til okkar eigin vinnureglur. Við skráðum þær á skjal með mynd af barninu og í votta viðurvist sem voru allir okkar vinir og ættingjar sem saman voru komnir til að fagna barninu með okkur. Hér er útdráttur úr loforði okkar:
Við skulum annast þig eins vel og við getum.
Þú skalt fá að prófa þig áfram eins og þú hefur þroska til. Þegar illa fer skulum við vera til staðar og hugga þig og hvetja og gleðjast með þér þegar vel gengur.
Við vonumst til að þú lærir að þú getur það sem þú vilt ef þú bara vilt það nógu sterkt.
Að þú verðir nógu sterk til að gera það sem þú veist að er rétt, jafnvel þó þú þurfir að sigla á móti straumnum.
Að þú lærir að virða sjálfa þig og aðra.
Við vonumst til að geta gefið þér góða byrjun á lífinu, svo að þú komir til með að geta séð um þig sjálf, en að við verðum samt alltaf til fyrir þig ef þú þarft á okkur að halda.
Ég er ekki að segja að allir eigi að gera eins og við. Mér finnst bara okkar aðferð ekki verri en sú sem kirkjan bíður uppá. Ég er ekki að segja að allir foreldrar sem skíra börnin sín í kirkju séu ómeðvitaðir um sitt val, en margir eru það og ég held að foreldrar sem taka ábyrga afstöðu og kynni sér hlutina séu betur undir foreldrahlutverkið búnir hvort sem þeir eru kristnir, trúlausir eða eitthvað allt annað. Þegar við skírum börnin okkar til kristinnar trúar, lofum við að ala þau upp í kristinni trú. Þar er ekki gefin nein trygging fyrir því að skólakerfið annist það fyrir okkur, heldur er það á ábyrgð foreldranna. Það er líka markmið mitt að börnin mín séu samkvæm sjálfum sér. Ég kenni þeim það með fordæmi mínu. Þess vegna fer ég líka framá að minn réttur til þess sé virtur.
Ef við lítum til baka á sögu mannkynsins, þá hafa flest mannréttindamál þurft baráttu. þetta er eitt af þeim og ég er sannfærð um að barnabörn okkar verða hissa þegar þau læra það í skólanum seinna að við höfðum ekki verið komin lengra en þetta árið 2007. Það að nenna ekki að kynna sér hlutina er ekki afsökun fyrir að styðja vitlausan málstað.
Að lokum vil ég óska ykkur öllum gleðilegra jóla. Jólin eru í mínum huga mikil fjölskylduhátíð og þess vegna vonast ég til að innan fjölskyldunnar rúmist mismunandi skoðanir.
Bloggar | Breytt 1.1.2008 kl. 09:00 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (14)
Það er kristinn bloggari hér á moggablogginu sem þrjóskast við að líkja húmanistma við kínverskan kommúnistma og trúleysi þar. Þessi sami bloggari lokar á alla sem eru annarra skoðunnar. Einhvern veginn finnst mér hún eiga heilmikið sameiginlegt með kommúnistmanum. Í Kína getur maður átt á hættu að lenda í fangelsi ef maður er annarra skoðunnar en stjórnvöld, en þessi tiltekni bloggari lokar að vísu bara á alla sem eru henni ósammála, en ef hún kæmist til valda, yrðum við sennilega sett í fangelsi.
Kommunistminn byggist upp á því að einstaklingurinn fórnar sér fyrir fjöldan, eða að þar er sett í forgang hvað kemur fjöldanum til góða, fram yfir hvað er einstaklingnum fyrir bestu. Þar er svo stjórn sem tekur ákvarðanir um hvað sé fjöldanum fyrir bestu, svo einstaklingurinn hefur ósköp lítið að segja.
Kristindómurinn er ósköp svipaður, nema þar getum við skipt út stjórnvöldum á móti guði. Guð veit hvað er kristnum fyrir bestu, eins og stjórnvöld í Kína vita hvað er kínverjum fyrir bestu.
Humanisten byggir aftur á móti á gerólíkum hugmyndum. Þar er frelsi haft að leiðarljósi og getur hver og einn tekið ákvörðun fyrir sig á meðan ekki er brotið á rétti annarra. Orð humanistans Voltaire lýsa því mjög vel, en hann sagði þessu frægu orð " mér líkar ekki skoðun þín, en ég er tilbúinn til að láta lífið í baráttunni fyrir rétti þínum til að tjá hana."
Trúmál og siðferði | Breytt s.d. kl. 10:47 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (14)
7.7.2007 | 01:43
Hvað þá Ísland?
Ég hef búið í Noregi og á 2 stelpur sem gengu þar í 1-5 bekk í grunnskóla. Aldrei voru þær settar í kirkju á skólatíma, aldrei þurftu þær að sitja undir sálmasöng í skólanum og aldrei þurftu þær að skera sig úr á nokkurn hátt þar sem þær eru trúlausar. Ég man ekki eftir að nokkurn tíman hafi verið ráðinn prestur eða djálkni í skólann til að sinna skólabörnum í vanda í stað fagfólks. Kannske er það bara vegna þess að norðmenn eru taldir nískir og tíma ekki að vera með svo dýrt starfsfólk í skólanu, en Íslendingar sem eiga aftur á móti svo mikið af peningum geta leyft sér það bruðl. Yngsta dóttir mín hefur aftur á móti gengið í íslenskan skóla frá 1-3 bekk og reynsla mín er sú að það mætti halda að grunnskólinn á Íslandi sé rekinn af þjóðkirkjunni.
í Noregi er til félagskapur sem er svipaður og Siðmennt á Íslandi, en fjárhagur þessara félaga er mjög ólíkur, því í Noregi fær félagið sóknargjöld meðlima sinna og það gerir þeim kleift að reka svona mál fyrir dómstólum. Félagsmenn í Siðmennt verða aftur á móti að borga auka skatt til Háskólans í stað þess að borga til Siðmenntar, sem er því í algjöru fjársvelti.
Það væri óskandi að Ísland þyrfti ekki að fá á sig fleiri dóma í mannréttindadómstólnum og löguðu það sem er greinilega brot á mannréttindum.
Mannréttindadómstóll gagnrýnir kristinfræðikennslu | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 01:44 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
16.6.2007 | 10:09
Ýta fjölmiðlar undir útlendingahatur?
Undanfarnar vikur hefur verið rætt um það í blöðunum, hversu illa útlendingar haga sér á Íslandi. Fyrir nokkrum vikum var stór grein í Morgunblaðinu með fyrirsögninni " Útlendingar fjölmennari í 4 afbrotaflokkum af 6" og nú síðast var skýrsla um að þeir keyri oftar fullir en aðrir ökumenn. Í litla textanum í moggagreininni, kom fram að yfirleitt séu útlendingar ekki algengari afbrotamenn, en á árunum 2003-2005 hafi þeir verið það. Þar kom einnig fram að á þeim árum var Kárahnjúkavirkjun að komast af stað og mikið hafi verið um útlenda mótmælendur sem voru með læti uppi við virkjun. Þeir erlendu faraldsverkamenn sem hér eru, eru yfirleitt einstæðir menn á aldrinum 20-35 ára, sem er einnig sá hópur íslendinga sem fremja flest afbrot hér á landi. Í greininni var velt fyrir sér hvernig þetta væri á hinum Norðurlöndunum og kom þá í ljós að þar er bannað að gera svona úrtektir. Íslendingunum fannst aftur á móti algjörlega úti hött að loka augunum fyrir vandamálinu.
Eru Norðurlandaþjóðirnar að loka augunum fyrir vandamálinu, eða gera þær sér grein fyrir því að 30 ára norðurlandabúi á meira sameiginlegt með 30 ára Pólverja en hann á með ömmu sinni á elliheimilinu? Er það til nokkurs annars en að skapa meira útlendingahatur að draga fram þessar upplýsingar. Það kemur ekkert fram hvort það séu útlendir mótmælendur, ferðamenn eða nýbúar á Íslandi, sem eru að framkvæma þessa glæpi. Samt er rætt við útlendingastofu til að finna orsökina.
Þetta minnir mikið á upplýsingar um hverjir fengu lungnabólgu í London á 19. öld. Þar kom fram að karlmenn með pípuhatta fengu síður lungnabólgu en aðrir karlmenn. Það var þó ekki pípuhatturinn sem kom í veg fyrir lungabólguna, heldur voru þeir með pípuhatta yfirleitt efnameiri og bjuggu við betri aðstæður.
10.6.2007 | 14:20
Heimsýn út frá trúarbrögðum. Umræða opin öllum.
Velmegun er árangur stjórnafars, fjárhagslegra og félagslegra ákvarðanna. Ef þær eru teknar af skynsemi og með hag fólksins að leiðarljósi, eru meiri líkur til að þær leiði til velmegunar, en ef ákvarðanir eru teknar eftir hvað sé guði þóknanlegt( samanber baráttan gegn AIDS i kaþólskum löndum).
Það er athyglisvert að sjá hvernig fólk hefur það í löndum þar sem trúleysi er hve algengast. þá er ég að tala um þau lönd þar sem fólk er trúlaust af fúsum og frjálsum vilja. Ef við skoðum listann yfir þjóðir sem hafa mestu velmegun í heiminum (lífslengd, fjöldi les og skrifandi fullorðinna, menntun og tekjur) kemur í ljós að þau 5 lönd sem eru á toppinum eru einmitt þau lönd sem státa af flestum frjálsum trúleysingjum (Noregur, Svíþjóð Holland, Ástralía og Kanada). Af þeim 25 löndum sem liggja á toppi þessa lista eru aðeins Írland og USA sem hafa mjög fáa trúleysingja. Í þeim 50 löndum sem liggja á botninum eru aftur á móti varla til frjálsir trúleysingjar. Ef við berum Bandaríkin, sem eru mjög kristin og hlutfall trúleysingja er mjög lágt(aðeins 3-7%), saman við önnur lýðræðis iðnaðarríki eins og Kanada, Japan og Evrópuríkin, kemur í ljós að USA hefur flesta morðingja, fátæka, erfiða offitusjúklinga, heimilislausa og er þar að auki eina landið sem heldur ennþá fast við dauðadóm. Það er líka eina landið sem ekki bíður sínu fólki uppá heilbrigðisþjónustu fyrir alla. Þetta ásamt fleiri áhugaverðum upplýsingum, kemur allt fram í skýrslum sem hægt er að finna í CIA WorldFactbook 2004 eða https://www.cia.gov/library/publications/the-world-factbook/index.html I SÞ World Social Situation Report 2003 kemur líka fram að af 40 fátækustu þjóðum heims voru öll löndin nema Víetnam mjög trúuð og með mjög fáa frjálsa trúleysingja. Þessi lönd eru einnig með flesta ólæsa íbúa jarðar. Jafnrétti er mest í löndum með flesta frjálsa trúlausa samkvæmt skýrslum frá SÞ Human Development Reports frá 2004 og staða minnihlutahópa eins og samkynhneigðra er einnig best þar. Það eina sem trúuðu löndin eiga vinninginn í er lág sjálfsmorðstíðni, en þar sem trúaðir telja það synd að stifta sig lífi, má ætla að sum dánarvottorðin séu fölsuð og tölurnar séu því í raun hærri í kristnu löndunum. Hvernig stendur þá á því að fólk viðist hafa það betra án trúar? Er það vegna þess að það auðveldar stjórnmálamönnum að taka ákvarðanir byggða á skynsemi?
Vísindi og fræði | Breytt s.d. kl. 15:09 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (11)
7.6.2007 | 21:36
Góður kennari
Fjölskylda og vinir | Breytt 8.6.2007 kl. 02:52 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
5.6.2007 | 19:29
Skólagarðarnir
Vinir og fjölskylda | Breytt 8.6.2007 kl. 02:52 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
3.6.2007 | 16:58
Ofsóknir á kristna?
Trúmál og siðferði | Breytt 8.6.2007 kl. 02:51 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (29)