Reyklaus – Trúlaus

Til hamingju Island. Loksins er runninn upp sá dagur þegar réttindi þeirra sem ekki vilja lifa í tóbaksreyk eru orðin hærri rétti reykingarmanna til að púa reyk yfir þá sem ekki reykja. Hverjum hefði dottið þetta í hug fyrir 20 árum, þegar kasóléttar mömmur sátu með öskubakkann á bumbunni og foreldrar púuðu sígarettu í framsætum bifreiða og það eina sem gat fengið þau til að taka tillit til barnanna afturí var ef svo óheppilega vildi til að börnin köstuðu upp yfir foreldrana. Mörgum finnst það jafnvel enn í dag algjör frekja að fara framá að fá að borða og skemmta sér í reykfríu umhverfi, en mikill árangur hefur náðst í dag þegar lög banna þennan ófögnuð á almanna færi.

Þetta gerir mig svo bjartsýna og glaða að ég fer ósjálfrátt að hugsa til þess að það verði kannski ekki sjálfsagt mál eftir nokkur ár að þjóðkirkjan fái að vaða yfir alla án tillits til þeirra sem hafa aðra trú eða lífssýn. Börn gætu gengið í skóla án trúarlegs áreitis. Forsetinn okkar og þingmennirnir, sem ekki tilheyra allir þjóðkirkjunni, þyrftu ekki að hlusta á guðþjónustu mörgu sinnum á ári. Sálfræðingur, geðhjúkrunarfræðingur eða aðrir sem hafa til þess menntun, standa öllum sjúklingum og aðstandendum til boða á sjúkrahúsum þegar áföll og erfiðleikar steðja að. Fólk þarf ekki að sitja auðum höndum heila rigningarhelgi vegna þess að hluti þjóðarinnar er að iðka trú sína. Hægt væri að flytja til frídaga svo þeir nytust fólki betur, til dæmis þá frídaga sem koma upp í miðri viku væri hægt að flytja til föstudags. Öll trúar og lífsskoðunarfélög verði jafn rétthá og almenningur sem ekki tilheyrir þjóðkirkjunni þarf ekki að sjá á eftir skattpeningum sínum í söfnuð sem þeir hafa ekkert að sækja til. Það væri ekki til nein þjóðkirkja, heldur gæti fólk haft sína söfnuði og rekið þá eins og hver önnur félög. Munum við Íslendingar einhvern tíman sjá einhvern af okkar afreksmönnum í íþróttum taka gull á ólympíuleikum væri kannski til þjóðsöngur sem allir gætu sungið, með gleði í hjarta.

Ég veit að þetta er fjarstætt, en var það ekki jafn fjarstætt fyrir 20 árum að við gætum farið á ball, fengið okkur í glas og dansað án þess að eiga á hættu að fá sígarettuglóð í andlitið.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Svanur Sigurbjörnsson

Skemmtilegt perspektív hjá þér.  Já höldum í vonina og áfram baráttunni fyrir betra samfélagi. 

Svanur Sigurbjörnsson, 6.6.2007 kl. 14:54

2 Smámynd: Óli Jón

Ég gæti ekki verið meira sammála þér ... bæði hvað varðar reykinn og Þjóðkirkjuna. Það sem merkilegt má telja er að aðskilnaður ríkis og Þjóðkirkju er líklega það besta sem sem kirkjan gæti gert núna, enda myndu margar óánægjuraddir lægja við það. Því er óskiljanlegt hvers vegna báðir aðilar draga lappirnar í þessu máli.

Við erum samstíga í þessari draumsýn sem vonandi verður að veruleika fyrr en síðar! :)

Óli Jón, 9.6.2007 kl. 21:55

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband