Ómanneskjulegt samfélag

 Hvernig er að alast upp í þjóðfélagi þar sem lífsskoðanir mans eru ekki virtar til jafns við þá sem ríkið hefur ákveðið að skuli ríkja? Dóttir mín er átta ára gömul og það sem hefur valdið mestum vandræðum, leiðindum og vanlíðan hjá henni síðan hún byrjaði í skólanum eru trúmál. Ekki hafði hún verið lengi í skólanum þegar ákveðið var að halda skemmtun fyrir foreldra og áttu yngstu börnin að syngja lag. Kennarinn hafði fengið upplýsingar um að dóttir mín var ekki trúuð, en þrátt fyrir það, ákveður hún að börnin skuli syngja lagið "Eg er furðuverk sem guð bjó til" sem Rut Reginalds gerði frægt fyrir mörgum árum. Af öllum þeim aragrúa af skemmtilegum barnalögum var sem sagt ekki hægt að velja lag sem öll börnin í bekknum gátu sungið með gleði og ekki fundið sig lítilsvirt.

Síðan byrjaði kristnifræðikennslan og þá byrjaði ballið. Dóttir mín hafi lært það heima hvernig maðurinn og dýrin urðu til, en þegar hún kom heim úr fyrsta kristnifræðitímanum, sagði hún mér að kennarinn hafi sagt að guð hafi skapað hana og allan heiminn, sólina tunglið og allt sem væri til. Þetta setti stelpuna í mjög erfiða aðstöðu. Átti hún að trúa því sem mamma, pabbi og stóru systur hennar sögðu, eða átti hún að trúa kennaranum. Henni fannst líklegra að heimilisfólkið hefði rétt fyrir sér, en henni fannst þó líka skrýtið að kennarinn væri að segja vitleysu. Í kristnifræðitímum spunnust miklar umræður og þar sem dóttir mín er alin upp erlendis, töldu hin börnin að þetta fólk í útlandinu væri bara svona vitlaust að það væri bara ekki búið að heyra um guð. Þetta setti stelpuna í þónokkurn vanda, því nú varð hún að rökræða við heilan bekk um trúmál og það er meira en hægt er að ætlast til af 6 ára gömlu barni, sem þar að auki talar bjagaða íslensku. Nú hafa börn á þessum aldri mikla þörf fyrir að setja sig í hópa. Til dæmis er eitt það fyrsta sem börn í Hafnarfirði verða að gera upp við sig þegar þau byrja í skóla, er hvort þau séu FHingar eða Haukarar. Þarna var dóttir mín ein í hóp og það held ég að sé stór orsök fyrir því að hún var útfryst í bekknum.

Rétt fyrir jól fékk ég miða með dóttur minni heim. Þar stóð að þau mættu koma í skólann með smákökur og kók því þau ætluðu að gera sér glaðan dag. Þennan saman dag mundu þau svo líka fara í kirkju þar sem yrði barnamessa. Þetta setti okkur í mjög erfiða aðstöðu, svo ég lét stelpuna velja hvort hún vildi fara í skólann, kirkjuna og allan pakkann, hvort hún vildi fara í skólann og fara svo heim þegar krakkarnir færu í kirkjuna eða hvort hún vildi vera heima. Hún valdi að vera heima, því ef hún færi heim úr skólanum, mundu krakkarnir fara að spyrja og það sama mundi gerast ef hún færi með í kirkjuna. Þetta varð til þess að hún missti af þeim degi, þegar krakkarnir fengu að taka með sér smákökur og gosdrykk.

Einn daginn þegar hún var komin með hjálm, legg, hné og olnbogahlífar og var að fara út á línuskauta, sagði hún mér að einhverjir krakkar í bekknum hennar hefðu sagt að það væri hættulegt fyrir hana að fara á línuskauta, því þar sem hún trúði ekki á guð, mundi hann ekki passa hana. Þess vegna væri betra fyrir hana að fara ekki niður brekkur á línuskautunum. Hún var því að velta því fyrir sér hvort ekki væri betra að taka kristna trú, svona í viðbót við hjálminn og hinar hlífarnar.

Ég sagði henni að nauðsynlegt væri fyrir alla krakka á línuskautum, hvort sem þau væru kristin eða ekki að fara varlega og vera ekki að fara niður brattar brekkur sem þau veldu ekki. Við fórum svo að ræða um guð og komumst að þeirri niðurstöðu að ef hann væri til, þá gæti hann ekki verið  góður guð ef hann  léti krakka detta bara vegna þess að þau tryðu ekki á hann.

Það er svo algengt að dóttir mín þurfi að svara fyrir trúmálin sín að það getur ekki talist eðlilegt. Allt frá því að hún sé bara heimsk og viti ekkert um guð upp í svona hræðsluáróður að hún sé ekki örugg í leik nema trúa á guð. Börnin hafa þetta frá fullorðnum og mikið af því kemur frá skólanum þar sem kristinfræðin er í raun trúboð. Ég varð aldrei vör við þetta í Noregi eða Svíþjóð þegar eldri stelpurnar voru að alast upp. þær þurftu ekki að skéra sig úr á nokkurn hátt, enda voru trúmál lítið til umræðu hjá börnum á barnaskólaaldri. Að vísu þá var venjan að skólaslit væru haldin í kirkjunni. Þar sem mér fannst ekki hægt að eyðileggja þennan gleðidag sem skólaslit eiga að vera með því að þvinga börnin í kirkju, hringdi ég í bæjarfélagið og spurði hvernig túlka bæri lögin um trúfrelsi og jafnrétti í skólum. Það tók bæjarstjórann 3 mánuði að svar þessari spurningu, en síðan voru skólaslit bönnuð í kirkjum í því bæjarfélagi.

Ég held því fram að börn á barnaskólaaldri sem ekki trúa á guð eigi á hættu að verða fyrir aðkasti vegna þessa. Er það svo mikilvægt fyrir þjóðkirkjuna að troða sínum áróðri á börn sem eru alltof ung og óþroskuð til að geta af nokkru viti tekið afstöðu til trúmála, að það réttlæti þessa ómanneskjulegu meðferð.

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Guðríður Hrefna Haraldsdóttir

Frábær pistill sem ég rakst á af tilviljun. Mér finnst fáránlegt ef skólakerfið er enn að troða kristnidómi inn í börnin. Sjálf leyfði ég syni mínum að ráða þessu algjörlega, hann fékk trúarþörf 10-11 ára og ákvað að verða kaþólskur . Gekk til prests í Landakoti í 2 ár, var sæll með það og kaþólikkarnir tóku honum mjög vel, mun alla tíð meta það við þá. Svo þegar hann vildi ekki vera "kaþólskur" lengur var ekkert gert til að þvinga hann, heldur ákvörðun hans virt. Það kom mér á óvart. Mér finnst að skólar ættu að vera algjörlega lausir við trúboð, það er nóg að megnið af sumarbúðum landsins séu þannig, svo dæmi sé tekið. 

Guðríður Hrefna Haraldsdóttir, 3.6.2007 kl. 17:50

2 identicon

Þakka ykkur innleggið. Auðvitað eiga krakkar að fá að ráða þessu sjálfir og mér finnst frábært hvernig kaþólska kirkjan hefur tekið á þessu með strákinn þinn Guðríður. Hanna Birna, ég ber virðingu fyrir fólki eins og þér, sem geta virt skoðanir annara, þó þú sért ekki sammála öllu. Eg held að kristnir mundu græða mikið á því að opna fyrir umræðuna og þora að hlusta á önnur rök, því eins og Jón Frímann segir, þá er mjög algengt að talsmenn kirkjunnar þoli ekki gagnrýni og mjög algengt er að þær bloggsíður sem fjalla um trúmál, séu lokaðar því fólki sem er ósammála síðueigenda.

Ásta (IP-tala skráð) 3.6.2007 kl. 18:12

3 Smámynd: Sigurður Karl Lúðvíksson

Úfff, þvílíkt óréttlæti, þvílík hneisa. Ekki á ég enn börn en það er alveg á kristaltæru að ég mun gera ALLT VITLAUST þegar ég fer með barnið mitt í grunnskóla. Þyrfti að stofna þrýstihóp foreldra í hverjum grunnskóla sem gætu unnið að því að úthýsa öllu trúarþvættingi úr skólum. Þetta er einfaldlega ekki ásættnalegt frekar en að kenna börnum að Andrés Önd hafi skapað heiminn og Andabær sé himnaríki.

Sigurður Karl Lúðvíksson, 5.6.2007 kl. 17:30

4 Smámynd: Ásta Kristín Norrman

Þessi grein er einnig á Vantru.is og þar er hægt að lesa fleiri sögur líkum þessum http://www.vantru.is/2007/06/03/09.00/ Þakka þér innleggið Sigurður, en þetta er alltaf erfitt, því maður vill ekki að krakkarnir verði fyrir óþægindum, svo þess vegna velja margir að láta krakkana sína taka þátt í ruglinu þrátt fyrir að maður sé á móti þessu.

Ásta Kristín Norrman, 5.6.2007 kl. 18:00

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband